text
stringlengths 0
2.14k
|
---|
Síðan riðu þeir heim á bæinn. Húsfreyja spurði þá tíðinda og fagnaði þeim vel. |
Björn svaraði: "Aukist hafa heldur vandræðin kerling." |
Hún svarar fá og brosti að. Húsfreyja mælti þá: "Hversu gafst Björn þér Kári?" |
Hann svarar: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel. Hann vann á þremur mönnum en hann er þó sár sjálfur. Og var hann mér hinn hallkvæmasti í öllu því er hann mátti." |
Þar voru þeir þrjár nætur. Síðan riðu þeir í Holt til Þorgeirs og sögðu honum einum saman tíðindin því að þangað höfðu eigi spurst tíðindin fyrr. Þorgeir þakkaði Kára og fannst það á að hann varð þessu feginn. Hann spurði Kára að hvað þá væri óunnið það er hann ætlaði að vinna. |
Kári svarar: "Drepa ætla eg Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson ef færi gefur á. Höfum við þá drepið fimmtán menn með þeim fimm er við drápum báðir saman en þó vil eg nú biðja þig bænar," segir Kári. |
Þorgeir kvaðst veita honum mundu það er hann beiddi. |
Kári mælti: "Það vil eg að mann þenna, er Björn heitir og að vígum hefir verið með mér, takir þú til þín og skiptir þú um bústaði við hann og fáir honum bú algert hér hjá þér og halt svo hendi yfir honum að engri hefnd sé til hans snúið og er þér það sjálfrátt fyrir sakir höfðingskapar þíns." |
"Svo skal vera," segir Þorgeir. |
Fékk hann þá Birni bú algert að Ásólfsskála en tók við búi í Mörk. Þorgeir færði sjálfur hjón Bjarnar til Ásólfsskála og allt búferli hans. Þorgeir sættist á öll mál fyrir Björn og gerði hann alsáttum sáttan við þá. Þótti Björn nú miklu heldur maður en áður fyrir sér. |
Kári reið í braut og létti eigi fyrr en hann kom vestur í Tungu til Ásgríms Elliða-Grímssonar. Hann tók við Kára ágæta vel. Kári sagði honum frá öllum atburðum þeim er orðið höfðu í vígum. Ásgrímur lét vel yfir því og spurði hvað Kári ætlaðist þá fyrir. |
Kári svaraði: "Eg ætla að fara utan eftir þeim og sitja svo að þeim og drepa þá ef eg fæ náð þeim." |
Ásgrímur sagði að hann væri engum manni líkur fyrir hreysti sína. Þar var hann nokkurar nætur. |
Síðan reið hann til Gissurar hvíta. Gissur tók við Kára báðum höndum. Kári dvaldist þar nokkura stund. Hann sagði Gissuri að hann mundi ríða ofan á Eyrar. Gissur gaf Kára sverð gott að skilnaði. |
Reið hann nú ofan á Eyrar og tók sér þar fari með Kolbeini svarta. Hann var orkneyskur maður og aldavinur Kára og var hinn kappsamasti og hinn vaskasti maður. Tók hann við Kára báðum höndum og kvað eitt skyldu yfir þá ganga báða. |
**153. kafli** |
Nú er þar til máls að taka er Flosi er, að þeir riðu austur til Hornafjarðar. Fylgdu Flosa flestir allir þingmenn hans. Fluttu þeir þá austur vöru sína og önnur föng og fargögn öll þau er þeir skyldu hafa með sér. Síðan bjuggu þeir ferð sína og skip. Var Flosi nú við skipið þar til er þeir voru búnir. En þegar er byr gaf létu þeir í haf. Þeir höfðu langa útivist og veðráttu illa. Fóru þeir þá hundvillir. |
Það var einu hverju sinni að þeir fengu áföll stór þrjú nokkur. Sagði Flosi þá að þeir mundu nokkur vera í nánd löndum og þetta væru grunnföll. Þoka var á mikil en veðrið óx svo að hríð mikla gerði að þeim. Fundu þeir eigi fyrr en þá keyrði á land upp um nótt eina og varð þar borgið mönnum en skip braut allt í spón og fé máttu þeir ekki bjarga. Urðu þeir að leita sér verma. |
En um daginn eftir gengu þeir upp á hæð nokkura. Var þá veður gott. Flosi spurði ef nokkur maður kenndi land þetta. Þar voru þeir menn tveir er farið höfðu áður og sögðust kenna að vísu "og erum vér komnir við Orkneyjar í Hrossey." |
"Fá máttum vér betri landtöku," segir Flosi, "því að Helgi Njálsson var hirðmaður Sigurðar jarls Hlöðvissonar er eg vó." |
Leituðu þeir sér þá fylgsnis og reyttu á sig mosa og lágu svo um stund og eigi langa áður Flosi mælti: "Ekki skulum vér hér liggja lengur svo að landsmenn verði þess varir." |
Stóðu þeir þá upp og gerðu ráð sitt. |
Flosi mælti þá til sinna manna: "Vér skulum ganga allir á vald jarlsins. Gerir oss ekki annað því að jarl hefir að líku líf vort ef hann vill eftir því leita." |
Gengu þeir þá allir í braut þaðan. Flosi mælti að þeir skyldu engum manni segja tíðindin eða frá ferðum sínum fyrr en hann segði jarli. |
Fóru þeir þá til þess er þeir fundu menn þá er þeim vísuðu til jarls. Gengu þeir þá fyrir jarl og kvaddi Flosi hann og allir þeir. Jarl spurði hvað manna þeir væru. Flosi nefndi sig og sagði úr hverri sveit hann var af Íslandi. Jarl hafði spurt áður brennuna og kenndist hann af því þegar við mennina. |
Jarl spurði þá Flosa: "Hvað segir þú mér til Helga Njálssonar, hirðmanns míns?" |
"Það," sagði Flosi, "að eg hjó höfuð af honum." |
Jarl mælti: "Takið þá alla." |
Þá var svo gert. Þá kom að í því Þorsteinn Síðu-Hallsson. Flosi átti Steinvöru systur Þorsteins. Þorsteinn var hirðmaður Sigurðar jarls. En er Þorsteinn sá Flosa höndlaðan þá gekk hann fyrir jarl og bauð fyrir Flosa allt það góss er hann átti. Jarl var hinn reiðasti og hinn erfiðasti lengi. En þó kom svo um síðir við umtölur góðra manna með Þorsteini, því að hann var vel vinum horfinn og gengu margir til að flytja með honum, að jarl tók sættum við þá og gaf Flosa grið og öllum þeim. Hafði jarl á því ríkra manna hátt að Flosi gekk í þá þjónustu sem Helgi Njálsson hafði haft. Gerðist Flosi þá hirðmaður Sigurðar jarls og kom hann sér brátt í kærleika mikla við jarlinn. |
**154. kafli** |
Þeir Kári og Kolbeinn svarti létu út hálfum mánuði síðar af Eyrum en þeir Flosi úr Hornafirði. Gaf þeim vel byri og voru skamma stund úti. Tóku þeir Friðarey. Hún er á milli Hjaltlands og Orkneyja. Tók við Kára sá maður er Dagviður hvíti hét. Hann sagði Kára allt um ferðir þeirra Flosa slíkt sem hann hafði vís orðið. Hann var hinn mesti vin Kára og var Kári með honum um veturinn. Höfðu þeir þá fréttir vestan um veturinn úr Hrosseyju allar þær er þar gerðust. |
Sigurður jarl bauð til sín að jólum Gilla jarli mági sínum úr Suðureyjum. Hann átti Svanlaugu systur Sigurðar jarls. Þá kom og til Sigurðar jarls konungur sá er Sigtryggur hét. Hann var af Írlandi. Hann var sonur Ólafs kvarans en móðir hans hét Kormlöð. Hún var allra kvenna fegurst og best að sér orðin um það allt er henni var ósjálfrátt en það er mál manna að henni hafi allt verið illa gefið það er henni var sjálfrátt. |
Brjánn hét konungur sá er hana hafði átta og voru þau þá skilin því að hann var allra konunga best að sér. Hann sat í Kunnjáttaborg. Bróðir hans var Úlfur hræða, hinn mesti kappi og hermaður. Fóstri Brjáns konungs hét Kerþjálfaður. Hann var son Kylfis konungs þess er margar orustur átti við Brján konung og stökk úr landi fyrir honum og settist í stein. En þá er Brjánn konungur gekk suður þá fann hann Kylfi konung og sættust þeir þá. Tók þá Brjánn konungur við syni hans Kerþjálfaði og unni meira en sínum sonum. Hann var þá roskinn er þetta er tíðinda og var allra manna fræknastur. Dungaður hét son Brjáns konungs en annar Margaður, þriðji Taðkur, þann köllum vér Tann. Hann var þeirra yngstur en hinir eldri synir Brjáns konungs voru frumvaxta og manna vasklegastir. Ekki var Kormlöð móðir barna Brjáns konungs. En svo var hún orðin grimm Brjáni konungi eftir skilnað þeirra að hún vildi hann gjarna feigan. Brjánn konungur gaf upp þrisvar útlögum sínum hinar sömu sakar. En ef þeir misgerðu oftar þá lét hann dæma þá að lögum. Og má af slíku marka hvílíkur konungur hann hefir verið. |
Kormlöð eggjaði mjög Sigtrygg son sinn að drepa Brján konung. Sendi hún hann af því til Sigurðar jarls að biðja hann liðs. Kom Sigtryggur konungur fyrir jól til Orkneyja. Þar kom þá og Gilli jarl sem fyrr var ritað. |
Svo var mönnum skipað að Sigtryggur konungur sat í miðju hásæti en til sinnar handar konungi sat hvor jarlanna. Sátu menn þeirra Sigtryggs konungs og Gilla jarls innar frá en utar frá Sigurði jarli sat Flosi og Þorsteinn Síðu-Hallsson og var skipuð öll höllin. |
Sigtryggur konungur og Gilli jarl vildu heyra tíðindi þau er gerst höfðu um brennuna og svo síðan er hún varð. Þá var fenginn til Gunnar Lambason að segja söguna og var settur undir hann stóll. |
**155. kafli** |
Í þenna tíma komu þeir Kári og Kolbeinn og Dagviður hvíti til Hrosseyjar öllum á óvart og gengu upp þegar á land en nokkurir menn gættu skips. Kári og þeir félagar gengu upp til jarlsbæjarins og komu að höllinni um drykkju. Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári hlýddu til á meðan úti. Þetta var jóladaginn sjálfan. |
Sigtryggur konungur spurði: "Hversu þoldi Skarphéðinn í brennunni?" |
"Vel fyrst lengi," sagði Gunnar, "en þó lauk svo að hann grét." |
Og um allar sagnir hallaði hann mjög til en ló víða frá. |
Kári stóðst þetta eigi. Hljóp hann þá inn með brugðnu sverði og kvað vísu þessa: |
Hrósa hildar fúsir, |
hvað hafa til fregið skatnar |
hve, ráfáka, rákum? |
rennendr Níals brennu. |
Varðat veiti-Njörðum |
víðeims að það síðan, |
hrátt gat hrafn að slíta |
hold, slælega goldið. |
Subsets and Splits