LOFSÖNGUR (Claus Frimann) Líti ég um loftin blá skýin, sem sigla fram silfurglitaðan boga, hálftungls gullnu hornin á, herinn stjarna, þann tindrandi loga, þrungna þrumuheimkynnið, þar sem að skruggan skæð skekur dunandi hamar, rekur fjalli högg á hlið, hittir skóginn og stórviðu lamar: Þú ert mikill, hrópa eg hátt, himna guð, ég sé þinn mátt! Fyrir þinni hægri hönd hnígur auðmjúk í duftið mín önd. Líti eg langt um útþönd höf, þar er skjót skipamergð skundar vængjuðum húnum, sökkur djúpt í sjávar gröf, sést svo aftur á aldnanna brúnum, þar er sé ég sverðfiskinn, hnúðurbak, hrosshvelið hart við stökkulinn glíma, þar er flögurflokkurinn ferðast réttum á vegi og tíma: Þú ert mikill, hrópa eg hátt, hafsins guð, ég sé þinn mátt! Sjór og hvað þar inni er órækt vitni um guðdóm þinn ber. Líti eg liljum skrýdda jörð, skoði ég skóg og strönd, skoði eg dali og fjöllin, skoði eg bugðu-breyttan fjörð, breiðar elfur og vatnsbunu-föllin, skoði eg skepnufjöld ótal, allt frá þeim ormi, sem undir duftinu skríður, yfir féð í fögrum dal fjær til himins, þar beinfleyg örn líður: Þú ert mikill, hrópa eg hátt, heimsins guð, ég sé þinn mátt! Lofið, himnar, haf og jörð, hann, hvers mætti þið af eruð gjörð! Í KIRKJUGARÐINUM (Úr leikritinu Aladdín eftir Oehlenschleger) Bíum, bíum, barnið góða! Sofðu nú sætt og sofðu lengi, þó að höll og hægindislaus og grafkyrr í grundar skauti vagga þín standi. Vertu í ró. Heyrirðu stynja storminn úti yfir mínum missi þunga, og átfreka yrmlingafjöld furukistu kroppa þína? Nú kemur inn hljóðfagri næturgali. Heyrirðu mjúkan munaðarklið? Var það áður, er þú vaggaðir mér. Nú skal ég, veslingur, vagga þér aftur! Hresstu huga þinn hans við söng. Allt skal eg þér til yndis velja. Heyrirðu dimma við dauðans hlið, barn mitt, hringja bjöllu þína? Sé ei hjarta þitt hart sem steinn, sjáðu, móðir, mína iðju: Ég skal af grátviðar grein þessari hljóðpípu smíða handa þér. Hresstu hug þinn við hennar róm, er hún einmana úti kvakar eins og vindur á vetrarnótt villur vakandi í votum greinum. Verð ég að víkja vöggu þinni frá. Kalt er að búa við brjóst þitt, móðir, og ég á mér ekkert hæli aftur að verma inni mig. Bíum, bíum, barnið góða! Sofðu nú sætt og sofðu lengi, þó að höll og hægindislaus og grafkyrr í grundar skauti vagga þín standi. Vertu í ró! DAGRÚNARHARMUR (Schiller) Heyri eg kirkju- klukkur dimmgjalla. Vísir er runninn vegu sína alla. Sé það svo, - sé það svo í guðs nafni! Líkmenn! Leiðið mig á legstað aftöku. Kyssi eg þig hinztum kossi skilnaðar. veröld, ó, veröld! Væti eg þig tárum. Sætt var eitur þitt, er það nú goldið, eiturbyrla ungra hjartna. Kveð ég yður, geislar guðs sólar! Flý ég yður frá í faðm dimmrar móður. Kveð ég þig, blómævi blíðra ásta, mey sem margblindar munaðs töfrum. Kveð ég yður drauma, dregna gullstöfum, himinbörn fögur, hugarburði smáa, dána blómknappa í dagsljósi skæru, aldrei um eilífð aftur að gróa. Sat ég fyrr hvítbúin sakleysis klæði, rauðum reifuðu rósa böndum: Brostu í ljósu lokkasafni fögur blóm. Þá voru friðardagar. Hræðilegt, hræðilegt! Helvítis fórn situr enn í hvítu sakleysisklæði, en í hinna rauðu rósa stað hrafnsvart líkband er að höfði snúið. Grátið mig, meyjar, er guð veitti sakleysis síns að gæta, er hin mikla móðir léði afl til að kefja ólgu veiks hjarta. Mannlega hrærðist hjarta mitt áður. Nú skal mér blíða þess banasverð vera. Fláráðum manni í faðm ég hneig. Dó þar Dagrúnar dygð í tómi. Nú er ég úr höggorms- hjarta slitin, þess, er aðra ástum glepur. Veit ég hann brosir og veigar kýs, meðan ég geng til grafar minnar. Leikur hann að lokkum ljósrar meyjar kjassmáll og kyssir og kossa þiggur, meðan að bunar blóð mitt unga á hörðum höggstokki hálsbenjum úr. Friðþjófur fagri! Á fjarlægri strönd duni þér Dagrúnar dauðahljómur, gjalli ógnefldar um eyru þér söngdimmar bjöllur úr sálarhliði, - svo, er af mjúkum meyjarvörum ástarorð þér unað færa, særi hann harðri helvítis und yndis blóm ykkar, svo þau öll hjaðni. Hrærir þig að engu harmur Dagrúnar - svívirt meyja, svikarinn vondi? barn okkar beggja? - ég bar það undir hjarta - allt, sem vargs vanga væta mætti tárum? Siglir hann, siglir - svífur skip frá landi, grátþrotin augu grimmum manni fylgja. Fláráður heilsar á fjarlægri strönd heitmey nýrri. Svo er hjörtum skipt. Barnunginn blíði bjó á móður skauti ástfalinn ungri algleymisværð. Brostu björt augu bláfögur móti móður augum morgunrósar. Og ástfagur allur svipur auma margminnti á mynd hins horfna. Varpar hann í brjóst vesalli móður ástar óviti og örvæntingar. "Hermdu mér, kona, hver er faðir minn?" Svo spyr hin þögla þrumurödd ómálgans. "Hermdu mér, kona, hver er maður þinn?" Hló við helvíti í hjarta mínu. Skelfing! Ó, skelfing! Skal til háðungar föðurlaus sonur að föður spyrja? Bölva muntu þínum burðardegi. saurlífis sonur, - ó, svívirðunafn! Brennur mér í hjarta helvítis glóð, einmana móður í alheimi víðum. Sit ég síþyrst að sælubrunni, er ég aldrei má augum líta. Æ, því ég blygðast barn mitt að sjá. Rifjar upp rödd þín raunir allar mínar, barn, og úr blíðu brosi þínu helörvar harðar á hjarta mínu standa! Helvítis kvöl er mér hann að þrá, - vítiskvöl verri verða þig að skoða. Vondir eru kossar vara þinna, hans er af vörum mér að hjarta streymdu. Eiðar hans allir í eyrum mér hljóma, - meineiðar allir margfaldlega, - allir um eilífð!" - Andskotinn þá þreif mér þjófshönd lífs, að þjakaði eg syni. Friðþjófur! Friðþjófur! Á fjarlægri strönd elti þig vofan hin ógurlega, hrífi þig hvarvetna helköldum greipum, svipti þér sárlega úr sælum draumi! Stari þér í augu úr stjörnu skínandi helbrostið auga hnigins sonar, elti þig ógnmargt um alheim víðan, hneppi þig burtu frá himindyrum!" Sjáið og skiljið! Sonur mér að fótum dauðsærður lá og dreyra roðinn. Sá ég blóð blæða, - blæddi þá ei minnur fjör úr æðum fáráðrar móður. Harðlega knúðu hurðir mínar dólgar dýflissu, dimmt var mér í hjarta. Flýtti eg mér fegin í faðm dauða sálarbruna sáran að slökkva. Friðþjófur fagri! Faðirinn góði, mildur miskunnar, mannkindum vægir. Bið ég þann föður þér fyrirgefa, syndum særð, sem eg sjálf það vil. Gefa vil ég jörðu grát minn og harm, hefnd mína alla og hjartaþunga. Nú hef eg ljósan loga kyntan, fórn að færa sem ég fremsta má. Vel er og vel er! Vafin eru loga bréf hans, og eiðar eldi gefnir. Hátt loga kossar heitir og sætir! Hvað var mér á foldu forðum kærra? Trúið þér ei yðar æskublóma, - aldregi, systur, eiðum manna! Fegurð varð að falli farsæld minni. Bölva verð ég henni á blóðstöð aftöku. Hvort er þér nú, böðull, hungur í augum? Bregðið mér bráðlega bandi fyrir sjónir. Hikarðu, böðull, blómknapp að slá? Náfölur böðull! Neyttu karlmennsku! MEYJARGRÁTUR (Schiller) Dunar í trjálundi, dimm þjóta ský - döpur situr smámeyja hvamminum í. Bylgjurnar skella svo ótt, svo ótt - öndinni varpar á koldimmri nótt brjóstið af grátekka bifað. "Heimur er tómur og hjartað er dautt, helstirðnað brjóstið og löngunarsnautt. Heilaga! Kalla mig héðan í frá, hef ég þess notið, sem jarðlífið á, því eg hefi elskað og lifað". "Tárin að ónýtu falla á fold, fá hann ei vakið, er sefur í mold. Segðu, hvað hjartanu huggunar fær, horfinnar ástar er söknuður slær - guðsmóðir vill þér það veita". "Tárin að ónýtu falli á fold, fái hann ei vakið, er sefur í mold. Mjúkasta hjartanu huggunin er, horfinnar ástar er söknuður sker, á harminum hjartað að þreyta". ALHEIMSVÍÐÁTTAN (Schiller) Eg er sá geisli, er guðs hönd skapanda fyrr úr ginnunga- gapi stökkti. Flýg ég á vinda- vængjum yfir háar leiðir himinljósa. Flýta vil ég ferðum - fara vil ég þangað, öldur sem alheims á eiði brotna, akkeri varpa fyrir auðri strönd að hinum mikla merkisteini skapaðra hluta við skaut alhimins. Sá ég í ungum æskublóma stjörnur úr himin- straumum rísa, þúsund alda að þreyta skeið heiðfagran gegnum himinbláma. Sá ég þær blika á baki mér, er ég til heima- hafnar þreytti. Ókyrrt auga sást allt um kring - stóð ég þá í geimi stjörnulausum. Flýta vil ég ferðum - fara vil ég þangað, ekkert sem ríkir og óskapnaður. Leið vil ég þreyta ljóss vængjum á, hraustum huga til hafnar stýra. Gránar í geimi - geisa ég um himin þoku þungaðan þjótandi fram. Dunar mér á baki dökknaðra sólna flugniður allra sem fossa deyjandi. Kemur þá óðfluga um auðan veg mér í móti mynd farandi: "Bíðdu, flugmóður ferðamaður! Heyrðu! Hermdu mér - hvert á að leita?" "Vegur minn liggur til veralda þinna. Flug vil ég þreyta á fjarlæga strönd að hínum mikla merkisteini skapaðra hluta við skaut alhimins". "Hættu! Hættu! Um himingeima ónýtisferð þú áfram heldur. Vittu, að fyrir framan þig er ómælisundur og endaleysa". "Hættu! Hættu! Þú, sem hér kemur, ónýtisferð þú áfram heldur. Belja mér á baki bláir straumar, eilífðar ógrynni og endaleysa. Arnfleygur hugur, hættu nú sveimi! Sárþreytta vængi síga láttu niður. Skáldhraður skipstjóri, sköpunarmagn, fleini farmóður flýttu hér úr stafni". FESTINGIN (Addison) Festingin víða, hrein og há, og himinbjörtu skýin blá, og logandi hvelfing, ljósum skírð, þið lofið skaparans miklu dýrð. Og þrautgóða sól, er dag frá degi drottins talar um máttarvegi, ávallt birtir þú öll um lönd almættisverk úr styrkri hönd! Kvöldadimman er kefur storð, kveða fer máni furðanleg orð um fæðingaratburð, heldur hljótt, hlustandi jarðar á þögulli nótt, og allar stjörnur, er uppi loga alskipaðan um himinboga, dýrðleg sannindi herma hátt um himinskauta veldið blátt. Og þótt um helga þagnarleið þreyti vor jörð hið dimma skeið og öngva rödd og ekkert hljóð uppheimaljósin sendi þjóð, skynsemi vorrar eyrum undir allar hljómar um næturstundir lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn: "Lifandi drottinn skóp oss einn!" Úr leikritinu DAUÐI KARLS FIMMTA (Carsten Hauch) 5. þáttur Snemma morguns í birtingu, úti nálægt Klöruklaustri í Valladolid. Gonzales - Alonzo Alonzo: Hver er það? Gonzales: Einn, sem þig engu varðar! Alonzo: Gonzales, heyri ég, mér gegnir nú. Gonzales: Hann að vísu. En hver ert þú? Alonzo: Vinur keisarans. Gonzales: Vitum hann dauðan. Alonzo: Svo er það sagt og sízt að dylja, hentleg að heimför hans er orðin. Gonzccles: Ert þú hér kominn, Alonzo? Alonzo: Heyrðu! Gonzales: Nú grær grund yfir gröf vors herra. Alonzo: Heyrðu, Gonzales, hún er mér sögð ekki auðfundin undir moldu. Gonzales: Ég við skiljumst. Alonzo: Ég held það með. Gonzales: Ætlan okkar er upp að vekja grafbúa dauðan, get ég að sé? ALonzo: Það er og mest mér í skapi. Gonzales: Full hef ég fimm hundruð fylgdarmanna, einbeitt lið allt að reyna. Alonzo: Þei, þei, einhver er hér á slóðum. Gætum vor, Gonzales, göngum úr vegi. (Þeir skýla sér bak við klausturmúrinn) Filippus - Carranza erkibiskup Carranza: Herra konungur! Hvort má nú dirfast eg að trúa augum mínum? Svo er mér hugtítt um heilsu yðra, að ég í auðmýkt andsvars að leita, dýrstur einvaldur, dirfast hlýt: Hvað hefur úr húsum höfðingjann þjóða, aldrei sem áður var einn á ferð, - hvað hefur úr húsum höfðingjann góða langt of leitt lífvarða sinna dökkum alfalinn dularklæðum, kallað út svo, að koldimmri nótt og flærðafullri sér fyrir trúir? Virðist, ó, virðist hinn vegsamlegi satt mér að segja það er sízt ég skil. ILLUR LÆKUR Kveðið eftir þjóðkunnu spánsku kvæði Lækur rennur í lautu, liggur og til þín sér: Alltaf eftirleiðis eg skal gá að mér. Nú fór illa, móðir mín! Mér var það samt ekki að kenna. Sástu litla lækinn renna græna laut að gamni sín, breikka, þar sem brekkan dvín, bulla þar og hossa sér? Vertu óhrædd, eftirleiðis eg skal gá að mér! Lækur gott í lautu á, leikur undir sólarbrekkum, faðmar hann á ferli þekkum fjóla gul og rauð og blá - einni þeirra eg vil ná, og svo skvettir hann á mig. Illur lækur! Eftirleiðis eg skal muna þig! Klukkan mín, svo hvít og hrein, hún er nú öll vot að neðan. Hefurðu þá heyrt og séð 'ann, hvernig ertnin úr honum skein. Ég hef orðið ögn of sein, og svo skvetti hann á mig. Illur lækur! Eftirleiðis eg skal muna þig! Lækur fer um lautardrag, leikur sér að væta meyna, þegar hún stígur þar á steina. Það er fallegt háttalag! Ég fer ekkert út í dag, uni, móðir góð, hjá þér! Vertu óhrædd, eftirleiðis eg skal gá að mér! KOSSAVÍSA (Adelbert von Chamisso) Ljúfi, gef mér lítinn koss, lítinn koss af munni þínum! Vel ég mér hið vænsta hnoss, vinur, gef mér lítinn koss! Ber ég handa báðum oss blíða gjöf á vörum mínum. Ljúfi, gef mér lítinn koss, lítinn koss af munni þínum! Leikur kossa lipur er, lætur þeim, er á kann halda, listin sú ei leiðist mér, leikur kossa fimur er, einatt reyni eg það hjá þér, þiggja, taka, endurgjalda. Leikur kossa lipur er, lætur þeim, er á kann halda. Vinur, gef mér ennþá einn ástarkoss af ríkum vörum! Einn fyrir hundrað, ungur sveinn, einn fyrir þúsund, réttan einn! Einn enn, þú ert ofur seinn, eg er betur greið í svörum. Vinur, gef mér ennþá einn ástarkoss af ríkum vörum! Rétt sem örskot tæpur telst tíminn mér við kossa þína - tíminn, sem ég treindi helzt, tæplega meir en örskot dvelst. Sárt er að skilja, gráti gelzt gleðin, þiggðu kossa mína! Rétt sem örskot tæpur telst tíminn mér við kossa þína. Kossi föstum kveð ég þig, kyssi heitt mitt eftirlæti, fæ mér nesti fram á stig, fyrst ég verð að kveðja þig. Vertu sæll, og mundu mig, minn í allri hryggð og kæti! Kossi föstum kveð ég þig, kyssi heitt mitt eftirlæti. NIHILISMI (Feuerbach) Ó, mikli guð! Ó, megn hörmunga! Ekkert að ending, eilífur dauði! Sálin mín blíða berðu hraustlega, sárt þótt sýnist, sanninda ok. Eilífð á undan og eftir söm, orðinn að engu og ósjölfur. Það getur þér augu þvegið hrein, ljós veitt og lá og litu góða. Ljós er alls upphaf, ekkert er bjart, ljóstær er þeirra lífs uppspretta. Upphaf er ekkert, ekkert er nótt, því brennur nótt í björtum ljóma. UPPHAFIÐ AF DAUÐA ABELS (Fr. Paludan-Muller) Uppi stóð Kain og á hlýddi grama guðs dóma, glataður, rekinn, útskúfaður einn öllum í heimi. Skalf hann og skarst hann og skyggndist um, og á frám fótum flótta sinn hóf. En á græna grundar hvílu bleikur bróðir var í blóð hniginn. Abel að annast ástúðleg kom móðir manns sona mjúkhent sjúkan. Álengdar hún sá, að upp lyfti hjartkærstum syni hennar í móti heiftar hendi hárri bróðir. Að kom þar Eva, er hann öndu sleit. Farið er fjörvi - fagur titrar ungur ástarson, andar þungan. Rennur rautt blóð úr rofnum vanga, lokki ljósgulum lit festir á. ARNGERÐARLJÓÐ (P. L. Möller) I. Fædd er ég þar sem fjallatindur fólgið ylgott hreiður ber, skjótt inn hvassi hvirfilvindur hossaði mér í fangi sér. Breiðir og greiðir vængir verða, væn úr hreiðri móðir sá mig að fara minna ferða megni vinda ósamgerða hátt yfir ský að heiði blá. Dunaði loft um dökkar fjaðrir. Dimmum stormi fló ég gegn. Sólin há og engir aðrir augna minna glæddi megn. Þekkti ég hættu ei né ótta, æ á flugi glöð og hlý, lítið hremmdi ég lamb á flótta, lyfti því upp til sólargnótta, drakk þar barkablóð úr því. Einhvern daginn ofan fló ég illskuramma jörð að sjá. Eldur og hvellur - og svo dó ég, allt varð dimmt, ég féll í dá. Lík hef ég verið lágt á jörðu, legið í rauðu blóði þar, vaknaði svo til harma hörðu, hjarta mitt er sundur mörðu. Hví dó ég ei til eilífðar? Vaknaði ég í hörmum hörðum, heil var sál, en megni stytt. Hnjúkur minn með hamragörðum: Hvar eru skýin, yndið mitt? Hvert er horfin gleði geima, góði fjaðurhamurinn? Ég, er svam um sólarheima, sit nú, orðin stúlkufeima, eins og gimbur grannvaxin. Hrynur mér af höfði niður hárið sítt og mjúkt og ljóst, varla þolir veðrahviður varið líni meyjarbrjóst. Fyrir háan himinboga hef ég fengið bæ og fjós, fyrir bláa bergið troga- búr, og dapran hlóðaloga fyrir skærust skrugguljós. II. Ó, að þeir fjötrar aftur brystu! Ó, ég lifði þá sælutíð, að mig vindarnir aftur hristu eldinga gegnum dyn og stríð! Ó, að flugvanar fjaðrir spryttu fram um mjallhvíta öxl og háls! Ó, að vindar mig aftur flyttu upp yfir höfði glaðrar skyttu skundaði ég um skýin - frjáls! Ónýtis til mín löngun leitar ljósu heimkynni mínu ná, vart yfir mínar varir heitar veldur hún sér í skýin há. Flugsterka vængi fyrir, greiða, fékk ég handleggi mjúka, smá, sem megna eg ekki að móti breiða manni kærum og sælan neyða mínum að brenna munni á. Frjálsa lofthafið, föðurbólið, fríðan og breiðan himingeim, misst hefi ég og móðurhólið. Mannkinda hrakin niður í heim hlýt ég að sitja í svartri treyju saman við smá og huglaus börn og kúra hér á kaldri eyju. Kalla mig allir fagra meyju og vita ekki, að eg er örn.